Ég er lengi búin að ætla að prófa marengskrem á köku. Ég smakkaði það síðast þegar ég var barn og rakst nýlega á uppskrift að því. Kakan er langbest nýbökuð með kreminu - ég held reyndar að hún sé ekki lengi að klárast þar sem kremið hreinlega bráðnar í munninum ;-) Ég hvet ykkur til að prófa, þið verðið ekki svikin! (Varúð: Aðeins fyrir mikla sælkera).
Kakan: 5 dl hveiti - 2 dl sykur - 2 dl púðursykur - 1 dl kakó - 3 tsk vanillusykur - 1 tsk matarsódi - 1 tsk lyftiduft - 170 gr brætt smjörlíki - 2 egg -2 1/2 dl mjólk - 1/2 dl heitt vatn.
Byrjað er á að bræða smjörið. Öll hráefnin, nema vökvinn eru sett í skál og hrærð saman. Því næst er heita vatninu og mjólkinni bætt rólega út í deigið. Deiginu er því næst hellt í smurt bökunarform (ca. 25 x 35 cm) og bakað við 200 °C í rúmlega 20-30 mínútur (mismunandi eftir ofnum).
Kremið: 3,5 dl sykur - 1 1/2 tsk agave sýróp (eða annað sýróp) - 2 tsk kalt vatn - 5 stórar eggjahvítur.
Öll hráefnin eru sett í skál og blandað saman með sleif. Næst er vatn sett í pott (u.þ.b. 7-10 dl) sem þarf að vera nógu stór til að rúma skálina. Þegar vatnið er byrjað að hitna er skálin sett í pottinn og hrært er í blöndunni. Mikilvægt er að blandan sjóði ekki. Hrært er í blöndunni þar til allur sykurinn er uppleystur og er þá skálin fjarlægð úr pottinum. Því næst er kremið hrært með hrærivél í u.þ.b. 12 - 15 mínútur. Svo er hægt að lita kremið með matarlit ef áhugi er fyrir því.
Þessi er mjög girnileg :)
ReplyDelete